Kafli B - Reglur um stjórn og siglingu

Siglingareglur


I. hluti – Stjórn og sigling skipa í hvers konar skyggni

 

4. regla
Gildissvið

Reglur í þessum hluta eiga við í hvaða skyggni sem er.


5. regla

Útvörður

Á hverju skipi skal ávallt halda dyggilegan vörð, jafnt með auga og eyra sem og með öllum tiltækum ráðum sem eiga við aðstæður og ástand hverju sinni svo að unnt sé að leggja fullkomið mat á aðstæður og hver hætta sé á árekstri.


Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Reglan um að halda dyggilega vörð á einnig við um litla báta. Okkur er skylt að halda útvörð jafnvel þótt aðeins einn sé um borð.Horfa skal til allra átta og nota bæði sjón og heyrn (hlusta eftir hljóðmerkjum) til að meta aðstæður og komast hjá árekstri.
Ef ratsjá er á bátnum á að nota hana þegar aðstæður krefjast þess.
Hafið hugfast að póstur milli stýrishúsglugga getur byrgt útsýn og myndað blindgeira. Ef bátur væri í þeirri átt (í blindgeiranum) og miðun breyttist ekki væri veruleg hætta á árekstri. Einnig er áríðandi að halda gluggunum eins hreinum og kostur er.


6. regla

Örugg ferð

Hverju skipi skal ávallt sigla með öruggri ferð svo að beita megi réttum og fullnægjandi stjórntökum til að komast hjá árekstri og unnt sé að stöðva
skipið á hæfilegri vegalengd sem aðstæður og ástand marka hverju sinni.

Þegar ákveða skal hvað sé örugg ferð skal m.a. taka tillit til eftirtalinna atriða:

a) Öll skip skulu taka tillit til:

i) skyggnis;

ii) fjölda skipa á siglingaleið, þar með þéttra flota fiskiskipa eða hvers konar annarra skipa;

iii) stjórnhæfni skipsins, sérstaklega með tilliti til stöðvunarvegalengdar og hæfni til að snúa skipinu við aðstæður hverju sinni;

iv) villuljósa að nóttu frá ljósum í landi eða vegna endurspeglunar ljósa á eigin skipi;

v) vindhraða, sjólags og strauma og nálægðar á hættum fyrir siglingar skipa;

vi) djúpristu skipsins miðað við dýpi siglingaleiðar.

 

b) Skip sem nota ratsjá skulu auk þess taka tillit til:

i) sérstakra eiginleika ratsjárinnar við mismunandi aðstæður, myndgæða og takmarkana við notkun tækisins;

ii) allra takmarkana vegna þeirrar fjarlægðarstillingar sem notuð er;

iii) áhrifa sjólags, veðurs og annarra truflanavalda á ratsjármynd;

iv) líkinda þess að lítil skip, ís og reköld komi ekki fram á ratsjánni í nægilegri fjarlægð;

v) fjölda, legu og hreyfinga skipa sem vart verður á ratsjánni;

vi) nákvæmara mats á skyggni sem má fá þegar ratsjá er notuð til að ákveða fjarlægð til skipa eða annarra hluta í nánd. 


Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Á nóttunni er gjarnan skuggi uppi við landið,sem ruglar fjarlægðarskynið. 

7. regla

Hætta á árekstri

a) Á sérhverju skipi skal beita öllum tiltækum ráðum sem eiga við aðstæður og ástand hverju sinni til að ganga úr skugga um hvort hætta sé á árekstri. Ef nokkur vafi er skal líta svo á að hætta sé á árekstri.


b) Ef skip er búið ratsjá skal nota hana af árvekni, þar með er talin stilling á lengri vegalengdir til þess að fá viðvörun um árekstrarhættu í tæka tíð og útsetning ratsjármyndar eða jafngild kerfisbundin athugun á endurvörpum sem sjást á ratsjánni.


c) Ekki skal draga ályktanir af ónógum upplýsingum, einkum þó ófullnægjandi upplýsingum frá ratsjá.


d) Þegar ákvarða skal hvort hætta sé á árekstri skal m.a. taka eftirfarandi til athugunar:

i) ef kompásmiðun af skipi sem nálgast breytist ekki svo að greint verði skal gera ráð fyrir að slík hætta sé fyrir hendi;

ii) jafnvel þó að miðun breytist greinilega getur stundum verið hætta á árekstri, einkum þegar nálgast er mjög stórt skip, eða eitthvað sem er dregið, eða skip sem er mjög skammt undan.


Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Mikilvægt er að halda sömu stefnu á meðan skipið er miðað, til þess að vera viss um að miðun skipsins breytist ekki. Við getum miðað með miðunarhring á kompásnum, með lausum miðunarkompás o.fl. Hentug aðferð um borð í litlum báti, til að ganga úr skugga um hvort miðun breytist,er að athuga hvort afstaðan til bátsins breytist með hliðsjón af föstum punkti um borð hjá okkur. Þessi fasti punktur getur verið t.d. gluggapóstur í stýrishúsglugganum.


Ef endurteknar miðanir sýna að báturinn eða skipið færist, svo um munar, fram fyrir eða aftur fyrir miðlínuna er ekki hætta á árekstri.


8. regla
Stjórntök til að forðast árekstur

a) Sérhver stjórntök til að forðast árekstur skulu framkvæmd í samræmi við reglur í þessum kafla og skulu, þegar aðstæður leyfa, framkvæmd hiklaust og í tæka tíð og um leið skal taka fullt tillit til þess sem góð sjómennska krefst.


b) Stefnubreyting og/eða hraðabreyting til að forðast árekstur skal, ef aðstæður leyfa, vera svo mikil að á skipi þar sem fylgst er með siglingu með berum augum eða í ratsjá verði breytingarinnar vart þegar í stað. Forðast skal tíðar og litlar breytingar á stefnu og/eða hraða.

 

c) Ef nægilegt svigrúm er getur stefnubreyting ein saman verið árangursríkast stjórntak til að komast hjá að nálgast annað skip um of, svo framarlega sem það er gert í tæka tíð, breytt er um stefnu svo um munar og stefnubreyting leiðir ekki til þess að siglt verði of nærri enn öðru skipi.


d) Þegar afstýra skal árekstri við annað skip skal það gert þannig að skipin fari hvort framhjá öðru í öruggri fjarlægð. Fylgst skal vandlega með að stjórntak til að víkja beri tilætlaðan árangur uns komið er alveg framhjá skipinu og á frían sjó.


e) Ef nauðsynlegt er til að forðast árekstur, eða ef þörf er frekari tíma til mats á aðstæðum, skal draga úr ferð skips eða stöðva það alveg með því að stöðva það sem knýr skipið áfram eða láta það ganga aftur á bak.


f)

i) Sé einhvers staðar í reglum þessum mælt svo fyrir að skip hvorki trufli siglingu né örugga siglingu annars skips skal það, þegar aðstæður krefjast, beita stjórntökum í tæka tíð þannig að nægilegt svigrúm verði fyrir örugga siglingu hins skipsins.

ii) Skip, sem ber hvorki að trufla siglingu né örugga siglingu annars skips, er ekki leyst undan þeirri skyldu sinni þó að það nálgist skipið þannig að hætta geti orðið á árekstri og skal við stjórntök taka fullt tillit til stjórntaka sem kann að verða gripið til í samræmi við reglur þessa kafla.

iii) Skipi, sem má halda óhindrað áfram, ber full skylda til að fylgja reglum þessa kafla þegar skipin tvö nálgast hvort annað þannig að hætta er á árekstri.


Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Siglingareglunar kveða skýrt á um að bátar mega ekki hindra ferðir skipa, sem vegna starfa sinna eiga leið um svæðið sem siglt er á. Skip sem eru að störfum geta t.d. verið ferjur í reglubundum siglingum, hraðskreiðir bátar sem flytja farþega eða stærri skip í strandsiglingum.
Einnig er rétt að benda á að betra er að bátar grípi tímanlega til aðgerða og breyti stefnu og/eða hraða svo um munar þegar þeir víkja. Annars geta stjórnendur stærra skipa ekki verið vissir um að bátarnir víki samkvæmt siglingareglunum, og grípa þá ef til vill til ónauðsynlegra aðgerða í öryggisskyni.


9. regla

Þröngar siglingaleiðir

a) Skip sem siglir þrönga siglingaleið eða ál skal halda eins nærri ytri mörkum siglingaleiðarinnar eða álsins sem veit að stjórnborða og unnt er án áhættu.b) Skip styttra en 20 m eða seglskip má ekki trufla siglingu skips sem aðeins getur siglt af fullu öryggi með því að þræða þrönga siglingaleið eða ál.c) Skip að fiskveiðum má ekki trufla siglingu nokkurs skips sem fer eftir þröngri siglingaleið eða ál.


d) Skip má ekki sigla þvert yfir þrönga siglingaleið eða ál ef það truflar með því siglingu skips sem öryggis vegna verður að þræða siglingaleiðina eða álinn. Á síðarnefnda skipinu má nota i hljóðmerki sem kveðið er á um í d-lið 34. reglu ef vafi leikur á um fyrirætlaða siglingu þess skips sem ætlar að sigla þvert yfir.


e)

i) Sé því aðeins unnt að sigla fram úr skipi í þröngri siglingaleið eða ál að skipið hliðri til og beiti sérstökum stjórntökum svo sigla megi framhjá því með fullu öryggi skal skipið, sem ætlar að sigla fram úr, láta þá fyrirætlun í ljós með viðeigandi hljóðmerki eins og mælt er fyrir um í i. lið c-liðar 34. reglu.

Ef skipið sem sigla á fram úr fellst á framúrsiglingu skal það gefa viðeigandi hljóðmerki eins og mælt er fyrir um í ii. lið cliðar 34. reglu og gera viðhlítandi ráðstafanir til að sigla megi framhjá því með fullu öryggi. Ef nokkur vafi er getur skipið gefið hljóðmerki eins og mælt er fyrir um í d-lið 34. reglu.

ii) Regla þessi leysir ekki skipið, sem siglir fram úr, undan skyldum samkvæmt ákvæðum 13. reglu.f) Skip sem nálgast bugðu eða svæði á þröngri siglingaleið eða í ál þar sem önnur skip geta verið í hvarfi skal sigla með sérstakri árvekni og varúð og gefa viðeigandi hljóðmerki eins og mælt er fyrir í e-lið 34. reglu.g) Sérhvert skip skal, svo framarlega sem aðstæður leyfa, forðast að varpa akkeri á þröngri siglingaleið.


Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Þessi regla á við um þröngar siglingaleiðir, s.s. innsiglingar til hafna, eða um þröng sund.
Litlir bátar geta í sumum tilvikum siglt utan venjulegra leiðar (utan eða innan við leiðarmerkin), eða siglt í rauðum eða grænum ljósgeira á öruggu dýpi, til að komast hjá árekstri við stærri skip.
Þegar við breytum stefnu við bauju eða á þröngri leið höldum við okkur sem lengst í stjórnborða í beygjunni, þ.e.tökum krappa stjórnborðsbeygju eða víða bakborðsbeygju.
Hér getum við ekki skotið okkur á bak við það að hitt skipið eigi að víkja samkvæmt 15. reglu, þó svo að við höfum nálgast skipið á stjórnborða áður en beygjan hófst.
15. reglan gerir ráð fyrir því að aðstæður séu þannig að þær leyfi óbreyttar stefnur.

 

10. regla
Aðskildar siglingaleiðir

a) Regla þessi gildir um aðskildar siglingaleiðir sem Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) hefur samþykkt og leysir ekkert skip undan skyldum þess samkvæmt sérhverri annarri reglu.


b) Skip sem siglir á aðskilinni siglingaleið skal:

i) sigla innan þeirrar einstefnuleiðar sem við á og í þá meginátt sem allri umferð skipa er stefnt í innan þessarar leiðar;

ii) eftir því sem framast er unnt halda sig frá leiðarmörkunum og svæðum sem skilja að einstefnuleiðir;

iii) að jafnaði sigla inn á eða út úr einstefnuleið þar sem hún endar og þegar siglt er frá annarri hvorri hlið inn á eða út úr einstefnuleið skal það gert undir eins litlu horni, miðað við meginstefnu skipaumferðarinnar, og framkvæmanlegt er með góðu móti.


c) Skip skal eftir því sem framast er unnt forðast að sigla yfir einstefnuleiðir, en ef það er óhjákvæmilegt, skal fara yfir leiðina á stýrðri stefnu sem myndar sem næst rétt horn við meginstefnu skipaumferðarinnar.


d)

i) Skip má ekki sigla eftir strandleið þegar það getur með öryggi siglt eftir einstefnuleið sem við á í aðliggjandi, aðskilinni siglingaleið. Þó mega skip styttri en 20 m, seglskip og skip að fiskveiðum sigla og athafna sig á strandleiðinni.

ii)  Þrátt fyrir i. lið d-liðar má skip sigla um strandleið þegar það er á leið til eða frá höfn, mannvirki eða byggingu á hafi úti, stöð hafnsögumanns eða öðrum þeim stað sem er innan strandleiðar eða til að forðast yfirvofandi hættu.
 

e)  Skip má venjulega ekki sigla inn á svæði sem skilur að einstefnuleiðir eða sigla yfir markalínu nema það ætli að sigla þvert yfir aðskildu siglingaleiðina, inn á eða út úr einstefnuleið og:

i)  í neyðartilvikum til að forðast bráða hættu;
ii)  við fiskveiðar á svæði sem skilur að einstefnuleiðir.


f)  Skip sem siglir nálægt endamörkum aðskilinna siglingaleiða skal gæta sérstakrar varúðar.


g)  Eftir því sem framast er unnt á ekki að varpa akkeri á aðskilinni siglingaleið eða á svæðum nálægt endamörkum leiðarinnar.


h)  Skip sem siglir ekki eftir aðskilinni siglingaleið skal halda sig eins fjarri leiðinni og unnt er.


i)  Skip að fiskveiðum má ekki trufla siglingu nokkurs skips sem siglir eftir einstefnuleið.


j)  Skip styttra en 20 m eða seglskip má ekki trufla örugga siglingu vélskips sem siglir eftir einstefnuleið.


k)  Skip með takmarkaða stjórnhæfni vegna starfa til að viðhalda öryggi við siglingar á aðskilinni siglingaleið er undanþegið ákvæðum þessarar reglu að því marki sem nauðsynlegt er til að skipið megi sinna störfum sínum.


l)  Skip með takmarkaða stjórnhæfni vegna starfa við lagningu, viðhald eða upptöku neðansjávarstrengs innan aðskilinnar siglingaleiðar er undanþegið ákvæðum þessarar reglu að því marki sem nauðsynlegt er til aðskipið geti sinnt störfum sínum.


Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Aðskildum siglingaleiðum má líkja við tveggja akreina veg, þ.e.a.s. umferðin liggur til beggja átta, með línu eða svæði sem skilur að siglingastefnunar.
Siglingareglunar gilda einnig innan aðskilinna siglingaleiða.
Aðskildar siglingaleiðir eru merktar í sjókortið og þar eru einnig sérstök merki sem sýna siglingastefnuna er ber að fylgja.


II. hluti – Stjórn og sigling skipa í sjónmáli

11. regla
Gildissvið

Reglur í þessum hluta eiga við skip í sjónmáli.

 

12. regla
Seglskip

a) Þegar tvö seglskip nálgast hvort annað þannig að hætta er á árekstri skal annað þeirra víkja fyrir hinu samkvæmt þeim reglum sem hér segir:

i) þegar þau hafa vind á gagnstæð borð skal skipið sem hefur vindinn á bakborða víkja fyrir hinu;

ii)  þegar bæði hafa vind á sama borð skal skipið sem er á kulborða víkja fyrir hinu sem er á hléborða;

iii)  ef skip með vind á bakborða sér skip á kulborða og getur ekki með vissu ákvarðað hvort hitt skipið hefur vindinn á bakborðs- eða stjórnborðshlið þá skal víkja fyrir því skipi.


b)  Með „kulborða“ í þessari reglu er átt við borðið sem er gagnstætt því sem stórseglið er haft í eða, ef um er að ræða rásiglt skip, gagnstætt því borði sem stærsta stagseglið eða gaffalseglið er haft í.Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Þessi regla gildir um tvö seglskip sem nálgast hvort annað. Það er afstaða skipanna til vindáttar og fyrirkomulag segla sem segir til um hvort þeirra á að víkja. Kulborði er borðið sem vindurinn blæs á. Hléborði er gagnstæða borðið. Í myrkri, þegar þegar við sjáum einungis hliðarljósin, verðum við að vera sérstaklega varkár og eftirtektarsöm, því erfitt getur verið að ákvarða hvoru megin seglin eru. Hafið hugfast að ákvæði í 13. reglu ganga fyrir í þessari reglu, án tillits til vindáttar.


13. regla

Siglt fram úr skipi

a)  Sérhvert skip sem siglir fram úr öðru skipi skal víkja fyrir því án tillits til þess sem segir í I. og II. hluta kafla B í þessum reglum.b) Skip telst sigla fram úr öðru skipi ef það nálgast það úr átt sem er meira en 22,5° aftan við þverskipsstefnu þess, þ.e. í þeirri stöðu, miðað við skipið sem siglt er fram úr, þá mundi að nóttu til aðeins sjást skutljós skipsins en hvorugt hliðarljósa þess.c)  Þegar ekki er unnt að ákvarða með vissu hvort eigið skip teljist sigla fram úr öðru skipi þá skal álíta að svo sé og haga siglingu í samræmi við það.


d)  Ekki skal nein breyting er síðar verður á innbyrðis afstöðu þessara tveggja skipa valda því að skipið sem siglir fram úr falli undir ákvæði þessara reglna um skip þegar leiðir skerast, né leysa það undan þeirri skyldu að halda sig frá skipinu sem siglt er fram úr, uns komið er alveg framhjá því og á frían sjó.


Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

13. regla leggur þá skyldu á okkur að víkja þegar við drögum annað  skip uppi. Þetta ákvæði á einnig við um seglskip sem dregur uppi vélskip.Seglskipið verður þá að víkja. Ef við drögum uppi annað skip á þröngri siglingaleið eigum við að fara fram úr þeim megin sem fjær er landi eða lengra frá annarri umferð. Ef unnt er eigum við helst að fara bakborðsmegin við skip sem siglt er fram úr.Við verðum að gefa hljóðmerki í samræmi við reglu 34 c.
Ekki fara framúr á stöðum þar sem útsýni er takmarkað og við sjáum ekki umferð sem kemur á móti. Einnig verður að hafa í huga að skipið, sem við erum að draga uppi, gæti dregið úr hraða eða numið staðar. Það á að sigla framhjá öðrum skipum í hæfilegri fjarlægð. Ef siglt er of nærri skut stórskipa getur sogið frá skrúfunni dregið að sér lítinn bát svo hætta hljótist af.

Bátur styttri en 20 metrar sem stór skipsigla fram úr þröngu sundi eða ál, verður að víkja (sbr. b-lið 9. reglu)
Í kappsiglingum (bæði fyrir segl- og vélbáta) gilda oft sérreglur milli þátttakenda.


14. regla

Vélskip á gagnstæðum stefnum

a)  Þegar tvö vélskip mætast á gagnstæðum stefnum eða næstum því gagnstæðum stefnum svo að hætta er á árekstri skulu bæði víkja til stjórnborða þannig að þau komist hvort framhjá öðru á bakborða. 

b) Þetta á við þegar skip sést beint framundan eða næstum því beint framundan og að nóttu mundu þá sigluljós skipsins sjást bera saman eða því sem næst og/eða bæði hliðarljósin myndu sjást en að degi til væri afstaða til hins skipsins samsvarandi.c)  Ef einhver vafi er á því hvort hitt skipið sé í þeirri afstöðu sem að framan greinir skal álíta að svo sé og haga siglingu í samræmi við það.


Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Þessi regla á einungis við þegar tvö vélskip stefna beint, eða því sem næst beint, hvort á móti öðru. Þau eiga bæði að víkja til stjórnborða og mætast með bakborða á móti bakborða. Á minni bátum sjáum við að þeir eru á gagnstæðum stefnum ef stefnin vísa hvort á móti öðru. Orðalagið „næstum gagnsstæðri stefnu“ merkir að stefni skipsins, sem á móti kemur, er minna en 5-6° til hliðar við stefni eigin skips. Vísi stefni skipsins, sem á móti kemur, meira en 5-6° til hliðar við stefni eigin skips gildir 15. regla.
Að nóttu til sjást samtímis bæði hliðarljós hins skipsins ef hlífar hliðarljósanna eru réttar. Á skipi með samsett ljósker getur það verið erfiðara. Leiki vafi á að um gagnstæðar stefnur sé að ræða á að víkja til stjórnborða í tæka tíð, þannig að rauða hliðarljósið sjáist vel frá skipinu sem á móti siglir. Þannig fylgjum við þessari reglu.15. regla

Þegar leiðir skipa skerast 

Þegar tvö vélskip stefna þannig að leiðir þeirra skerast, og hætta er á árekstri, skal skipið sem hefur hitt á stjórnborða víkja og skal, ef aðstæður leyfa, forðast að sigla fyrir framan hitt skipið.Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Þegar við víkjum eigum við að forðast að fara fyrir framan hitt skipið.
Helst á að beygja til stjórnborða og fara aftur fyrir skipið, einnig er hægt að draga úr hraða. Við getum stansað og bakkað ef nauðsyn krefur, til að hitt skipið geti komist framhjá. Best er samt sem áður að breyta stefnu svo um munar og í tæka tíð sé það hægt vegna aðstæðna og umferðar.
Við getum reiknað með að verða að víkja samkvæmt 15. reglu þegar við höfum skip á bilinu frá 5-6° stjórnborðsmegin við stefnu að 22.5° aftur fyrir þvert á stjórnborða, og miðunin breytist lítið sem ekkert.
Ef miðunin breytist, mun skipið annað hvort fara fyrir framan eða aftan okkur.


16. regla

Stjórntök skips sem á að víkja

Sérhvert skip sem skylt er að víkja fyrir öðru skipi skal, eftir því sem framast er unnt og í tæka tíð, beita stjórntökum sem um munar og duga til að víkja og veita nóg rúm.


17. regla

Stjórntök skips sem á að halda stefnu og ferð óbreyttri
a)

i) Þegar annað tveggja skipa á að víkja skal hitt halda stefnu sinni og ferð óbreyttri.

ii) Skip sem á að halda stefnu og ferð óbreyttri má þó grípa til stjórntaka til þess að afstýra árekstri um leið og ljóst er að skipið sem átti að víkja gerir ekki viðhlítandi ráðstafanir samkvæmt þessum reglum.


b)  Þegar skipið sem á að halda stefnu og ferð óbreyttri er af einhverjum ástæðum komið svo nærri að ekki verður komist hjá árekstri með þeim einum stjórntökum sem skipið sem á að víkja grípur til skal skipið sem á að halda stefnu og ferð óbreyttri gera hverjar þær ráðstafanir sem best geta afstýrt árekstri.


c)  Vélskip sem grípur til stjórntaka í samræmi við ii. lið í a-lið þessarar reglu til þess að afstýra árekstri við annað vélskip þegar leiðir þeirra skerast skal, ef aðstæður leyfa, ekki breyta stefnu til bakborða fyrir skipi sem það hefur á bakborðshlið.


d)  Regla þessi leysir ekki skipið sem á að víkja undan þeirri skyldu sinni.


Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Ef við erum komin of nærri skipi sem á að víkja fyrir okkur og engin merki sjást um að svo verði, verðum við að grípa til aðgerða til að forðast árekstur.


Dæmi:
Við erum á báti A og sjáum að bátur B nálgast í árekstrarstefnu.
Okkur finnst bátur B víkja of seint og gefum það til kynna með hljóðmerkjum samkvæmt 34 (d). Það hefur engin áhrif á bát B þannig að við verðum að víkja til að komast hjá árekstri.
Við gefum því eitt stutt hlóðmerki með flautunni, í samræmi við reglu 34 (a), og gefum stjórnanda B til kynna að við ætlum að beygja til stjórnborða.


Ef við erum um borð í seglbáti, sem samkvæmt þessari reglu á að halda stefnu og ferð óbreyttri, verðum við að grípa til aðgerða og venda þegar þegar það langt er á milli skipanna að við getum tekið hringinn og skipið sem á að víkja geti þá hagað stjórntökum í samræmi við það.
Skip sem á að víkja verður auk þess að hafa hugfast og vera við því búið að seglskipið getur ekki alltaf haldið stefnu og ferð óbreyttri vegna óvæntra vindbreytinga.


18. regla

Gagnkvæmar skyldur skipa

 

Komi ekki annað fram í 9., 10. og 13. reglu gilda eftirfarandi ákvæði:


a) Vélskip sem er laust skal víkja fyrir:

i) stjórnvana skipi;

ii) skipi með takmarkaða stjórnhæfni;

iii) skipi að fiskveiðum;

iv) seglskipi.

 

b)  Seglskip sem er laust skal víkja fyrir:

i) stjórnvana skipi;

ii) skipi með takmarkaða stjórnhæfni;

iii) skipi að fiskveiðum.


c) Skip að fiskveiðum sem er laust skal eftir því sem framast er unnt víkja fyrir:

i) stjórnvana skipi;

ii) skipi með takmarkaða stjórnhæfni.


d)

i) Sérhvert skip, annað en stjórnvana skip eða skip með takmarkaða stjórnhæfni, skal eftir því sem aðstæður leyfa, forðast að trufla örugga siglingu skips sem er bagað vegna djúpristu og sýnir ljós- eða dagmerkið sem um getur í 28. reglu.

ii) Skip sem er bagað vegna djúpristu skal sigla með sérstakri varúð og taka fullt tillit til sérstaks ástands skipsins.


e)  Sjóflugvél á sjó og vötnum skal að jafnaði halda sig fjarri öllum skipum og forðast að trufla siglingu þeirra. Við aðstæður þar sem hætta er á árekstri skal sjóflugvél þó fylgja reglum þessa kafla.


f)

i) Sviffar (WIG) skal þegar það lyftir sér til flugs, lendir og svífur nærri yfirborði halda sig fjarri og vel frítt af öðrum skipum og forðast að trufla siglingu þeirra;

ii) Sviffar (WIG) í förum á yfirborði sjávar og vatna skal fylgja reglum þessa kafla eins og um vélskip væri að ræða.


Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Þessi regla, sem skipt er í fjóra liði: a, b, c og d, segir fyrir um hvaða skip skuli víkja fyrir hverjum. Undantekningar frá þessari reglu eru í 9. 10. og 13. reglu.
Dæmi: Regla 18 (a i) mælir fyrir um að vélskip víki fyrir seglskipi. Regla 13 (a) mælir hinsvegar fyrir um það að seglskip skuli víkja fyrir vélskipi, ef seglskipið dregur vélskipið uppi. Enn fremur mælir regla 18 ( a 3) fyrir um að vélskip skuli víkja fyrir skipi að fiskveiðum.Regla 9 (c) mælir hinsvegar fyrir um að skip að fiskveiðum megi ekki hindra siglingu skips á þröngri siglingaleið.


Þröng siglingaleið

 

Enn fremur mælir regla 18 ( a 3) fyrir um að vélskip skuli víkja fyrir skipi að fiskveiðum

 

 

III. hluti – Stjórn og sigling skipa í takmörkuðu skyggni


19. regla
Stjórn og sigling skipa í takmörkuðu skyggni

a) Regla þessi á við um skip sem eru ekki í sjónmáli þegar siglt er á eða nærri svæði þar sem skyggni er takmarkað.


b) Sérhvert skip skal sigla með öruggri ferð sem miðast við aðstæður og ástand hverju sinni vegna takmarkaðs skyggnis. Vélskip skal hafa vélar sínar viðbúnar tafarlausri gangskiptingu.


c) Þegar fara skal eftir reglum I. hluta þessa kafla skulu öll skip taka fullt tillit til aðstæðna og ástands hverju sinni vegna takmarkaðs skyggnis.


d)  Þegar skip verður aðeins vart við nærveru annars skips í ratsjá skal ganga úr skugga um hvort skipin muni nálgast hvort annað um of og/eða hvort hætta sé á árekstri. Ef svo er skal í tæka tíð gera ráðstafanir til að auka fjarlægð milli skipanna og afstýra árekstri og ef breytt er um stefnu við þau stjórntök skal eftir því sem framast er unnt forðast:

i) að breyta stefnu til bakborða fyrir skipi sem er framan við þvert nema breytt sé stefnu fyrir skipi sem siglt er fram úr;

ii) að breyta stefnu í átt að skipi sem er þvert eða aftan við þvert.e)  Sérhvert skip skal, nema engin hætta sé á árekstri, draga úr hraða og setja á minnstu stjórnferð þegar það heyrir þokumerki frá öðru skipi sem virðist vera framan við þvert eða það, svo að ekki verður við ráðið, nálgast um of annað skip framan við þvert. Ef nauðsyn krefur skal stöðva skipið alveg og í öllum tilvikum skal sigla með ýtrustu varkárni þar til hætta á árekstri er liðin hjá.


Skýringar frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:

Takmarkað skyggni getur stafað af ýmsum ástæðum, s.s. þoku, regni, snjókomu o.fl. Við slíkar aðstæður verður árekstrarhætta veruleg.
Ef dregur úr skyggni verður að styðjast við þau hjálpartæki sem við höfum. Ef ratsjá er í bátnum ber að nota hana, en auk þess verður að sigla með ítrustu varúð og nákvæmni. Siglingaljós á strax að kveikja ( í samræmi við 20. reglu), og það á að gefa hljóðmerki í samræmi við 35. reglu. Þetta á við þótt bjart sé af degi. Siglt skal á hæfilegri ferð miðað við aðstæður. Það kallast að sigla með „öruggri ferð“ en ekki er hægt að segja fyrirfram hvað er „örugg ferð“ við slíkar aðstæður. Slíkt verður að meta í hverju tilviki fyrir sig.


„Örugg ferð“ er háð aðstæðum, s.s. því hvort umferð er á svæðinu, hvernig veður er og hvernig stjórnhæfni bátsins er háttað.


Minni bátar taka krappari beygjur og stöðvunarvegalengd þeirra minni en stærri báta. Þetta heimilar ekki meiri hraða í takmörkuðu skyggni.


Ef við erum stödd úti á rúmsjó eða á breiðum firði og fyrirvaralaust skellur yfir okkur biksvört þoka, er got að halda kyrru fyrir um stund og hlusta eftir hljóðmerkjum frá öðrum skipum. Ef við erum aftur á móti á þröngri siglingaleið, þar sem mikil skipaumferð er, hentar það ekki að liggja kyrr.


Þegar við liggjum kyrr og hlustum eftir hljóðmerkjum frá öðrum skipum, vitum eða sjómerkjum, eigum við aldrei að stöðva vélina. Hún á alltaf að vera í gangi og tilbúin til notkunar í tæka tíð.

Öll réttindi áskilin © Fræðslumiðstöð Vestfjarða www.frmst.is