Um bátinn

Bátarnir sem bátaleigurnar leigja út til sjóstangaveiða eru flestir smíðaðir hjá Seiglu á Akureyri eða Bátasmiðju Guðmundar í Hafnafirði. Bátarnir frá Seiglu heita einfaldlega Seiglubátar, en bátarnir frá Bátasmiðju Guðmundar kallast Sómabátar.

Þetta eru liprir og haganlega byggðir bátar úr trefjaplasti. Þeir eru góðir sjóbátar sem verja sig vel, um 7 metra langir með góðu vinnuplássi á dekkinu. Fremst í bátunum er lúkar með plássi fyrir fjóra til fimm manns. Þar er lítill hitablásari sem heldur hita svo betur fari um fólk um borð.

Þetta eru liprir og haganlega byggðir bátar úr trefjaplasti. Þeir eru góðir sjóbátar sem verja sig vel, um 7 metra langir með góðu vinnuplássi á dekkinu. Fremst í bátunum er lúkar með plássi fyrir fjóra til fimm manns. Þar er lítill hitablásari sem heldur hita svo betur fari um fólk um borð.

Í stýrishúsinu er lítið stýri (ratt) til að stjórna bátnum. Einnig eru þar mælar sem fylgjast með gangi vélarinnar og magni olíu á olíutanki bátsins ásamt kompás, plotter og dýptarmæli sem eru yfirleitt í einu og sama tækinu.

AIS (Automatic Identification System) sjálfvirkur vöktunarbúnaður er í bátnum, en tækið sendir upplýsingar um hvar báturinn er staddur hverju sinni til Vaktstöðvar siglinga, sem sér samstundis ef merki hverfur, grennslast þá fyrir um bátinn og lætur hefja leit ef ástæða þykir til.

Önnur tæki eru olíugjöfin og gírskipting til að sigla áfram, bakka og setja í hlutlausan, en þá er skrúfan stopp. Vélin er aftast í bátnum með svokölluðu hældrifi, en sá útbúnaður er bæði stýri og skrúfa.

Uppi á stýrishúsinu á Seiglubátunum er gúmmíbáturinn geymdur, en í Sómabátunum er björgunarbáturinn staðsettur aftan á bátnum. Í miðjum bátnum er pláss fyrir tvö fiskikör og eru þau skorðuð þar.

Það er aðalsmerki góðrar skipshafnar að ganga vel og snyrti lega um bátinn og fara vel með fiskinn sem veiðist.

Farsvið frístundafiskiskipa takmarkast við strandsiglingar og það hafsvæði þar sem fullnægjandi móttökuskilyrði eru fyrir lögboðinn fjarskiptabúnað og AIS vöktunarbúnað skipanna. Þar sem móttökuskilyrði fjarskipta- og vöktunarbúnaðar sætir takmörkunum vegna fjarskiptaskilyrða eða vegna þess fjarskipta- og vöktunarbúnaðar sem skipin eru búin, skal útgerð skips sjá til þess að slík svæði séu undanþegin farsviði frístundafiskiskipa til að tryggja að ávallt séu skilyrði fyrir beinu fjarskipta- og vöktunarsambandi á milli frístundafiskiskips og lands.

Farsvið opinna frístundafiskiskipa skal takmarkast við hafsvæði allt að 3 mílur frá landi.

Rekstur opinna frístundafiskiskipa skal takmarkaður við tímabilið frá 1. apríl til 1. október.

Siglingastofnun getur sett nánari skilyrði að því er varðar farsvið frístundafiskiskipa með tilliti til árstíma, birtuskilyrða, sjólags og takmarkana í getu eða kröfur til þess sem gegnir stöðu skipstjóra til að annast um öryggi skipsins og þeirra sem um borð eru.

Öll réttindi áskilin © Fræðslumiðstöð Vestfjarða www.frmst.is